föstudagur, febrúar 24

sól, dól og skemmtilegheit

það er erfitt að hysja upp um sig sokkana þegar komið er í paradís. hólavegsfjölskyldan er mætt til hua hin - tælandi og hafa síðustu dagar farið í skraf, sóldýrkun, golf, borða og fleira sem þykir við hæfi á þessum frábæra stað.

kláruðum kambódíu með því að fara aftur í angkor wat og skoða minni og stærri hof sem liggja víða um völl um þetta risastóra svæði. svosum ekkert meira um það að segja. enduðum daginn á því að fara í loftbelg í 130 metra hæð og virða ferlíkið fyrir okkur úr lofti. magnað. gistum á hosteli sem rekið er af hjónum frá noregi. fyrir einhverjum árum voru þau í sömu erindagjörðum og við, nema, að svo elskuðu þau siem reap svo mikið, að þau ákváðu að söðla um og hafa ekki farið síðan. daginn eftir var komið að laaaang skemmtilegustu rútuferðinni til þessa. ferðatilhögun nokkurn veginn svona. frá siem reap að landamærum tælands átti að vera svona tja um fimm klst. með mini bus. labba yfir landamærin, tekur um tuttugu mínútur, og finna svo enn eina rútuna eða mini bus er átti að taka um sex klst. til bangkok. vöknuðum um morguninn og klæddum okkur við hæfi, eða þannig að loftkælingin myndi ekki frysta okkur. vorum síðustu farþegarnir inn í mini businn og hvað haldið þið – jú engin loftkæling, bara opnir gluggar til að hleypa ferska þrjátíu og fimm stiga heitu loftinu um kaggann. fjárframlög ríkisstjórnar kambódíu hafa ekki farið í að leggja “dísent” vegi um sveitir landsins, þvert á móti. leit vel út í byrjun með einföldu malbiki í fimm kílómetra – restin var malarvegur sem er verri en vatnsdals hringurinn var fyrir fimmtíu árum. rykið, hristingurinn, hávaðinn og lætin næstu sex tíma var þvílík upplifun og hrikalega gaman.

pínulítill en upptekinn landamærabær tók á móti okkur þar sem við skráðum okkur út úr kambódíu, löbbuðum einhverja hundruði metra sem virtust vera í einskismannslandi þar sem allt í einu voru spilavíti til beggja handa og risa hótel?!? aftur fengum við þrjátíu daga vegabréfsáritun til tælands og fyndið hvað litlir hlutir eins og loftkældur bíll getur gert mann glaðann. þessi téði bíll skilaði okkur heilu og höldnu inn í mekka bakpakkarana, khao san road – bangkok. munum ekki hvort við vorum búin að lýsa þessari götu áður í okkar pistlum en ákveðið að gera það engu síður. þetta er svona laugavegur túristanna. götusalar, götueldhús, tattú stofur, nudd stofur dót og drasl eins og þú getur í þig látið. komumst að því að hægt er að greina samfélagið í þrjá ólíka hópa fólks er þarna lifir í sátt og samlyndi; aðaltöffararnir sem eru búnir að vera allt of lengi í heimsreisu. þekkist langar leiðir, dreddar niður á bak, aðeins of mörg tattú og pínu reyktar týpur; venjulega fólkið sem lætur sér duga að kaupa fötin sem til eru í götunni, en allir túristarnir eru búnir að kaupa sömu thai buxurnar, hlýrabolina og bandaskóna; hallærislega fólkið sem engan veginn passar þarna inn, röltir um með samsonite ferðatöskurnar sínar og í hæla skóm, ætti að halda sig annarsstaðar:) frábært samfélag.

tókum daginn eftir rólegan í bangkok og reyndum að láta þessar mínútur líða að lendingu fjölskyldunnar. voru sem eilífð. borgin upptekin eins og venjulega, frakklandsforseti í heimsókn og mikið um lokanir á helstu túristastöðunum. gátum þó heimsótt grand palace og sleeping búdda sem er risa stytta af trúargoðinu þeirra úr gulli – að sjálfsögðu. mætt á flugvöllinn kl. sjö morguninn eftir með hatta og knöll. kom þá í ljós að höfuð ættarinnar hafði misst af fluginu frá frankfurt og aðeins lúxarar mættir. sviptum okkur í bæinn með þreytta ferðalanga og gáfum þeim morgunmat og nudd. ma og pa lentu seinni partinn með tilheyrandi gleði og brunað suður á bóginn til hua hin. eins og fram hefur komið hafa dagarnar liðið allt of hratt og höfum haft okkur öll við að njóta samverustundanna. þess á milli, flatmagað í sólinni, lesið, borðað, sofið, borðað, golf og síðast en ekki síst, notið lífsins.

dugnaður mætti enn og aftur í heimsókn á myndasíðuna, nýjar frá víetnam (í sömu möppu, og tvær síður), kambódíu og tælandi.

einhverjir hafa kvartad yfir thvi ad ylhyru stafirnir hafa latid standa a ser, radid vid thvi er ad yta a F5 eda refresh hnappinn og aetti ta vandamalid ad vera ur sogunni.

sólarkveðjur til ykkar allra...

ps: vonum að allir fyrirgefi þetta bloggleysi, það er bara svo erfitt að vera svona í fríi og hafa nógan tíma:)

þriðjudagur, febrúar 14

kambódía

komin til kambódíu. mætt kl. 7.20 í angkor wat. gæsahúð.

en byrjum nú þar sem frá var horfið. stríðs þemað var enn í hávegum haft í hcmc. seinni daginn í stórborginni fórum við í ferð í cu chi göngin. þau eru hvað frægust fyrir hlutverk sitt sem skjól fyrir víetnama í stríðinu. æðislegur eldri maður var gæd hjá okkur. barðist sjálfur í stríðinu og gætti nokkurs biturleika og harms í frásögn hans, en samt svo glaður eins og allir víetnamar eru. eins og í stríðsminjasafninu var frásögnin svolítið einsleit, þ.e. bara önnur hliðin á málinu. ekki það að við ætlum að taka einhverja afstöðu, heldur bara að taka þessu öllu með pínu fyrirvara. en aftur að göngunum. einhverjir kynnu að halda að þetta væru hvalfjarðargöngin eða líkt þeim? því er nú fjarri. áður en bandaríkjamenn sprengdu göngin í loft upp með b-52, voru þau um tvöhundruð kílómetrar að lengd og náðu allt upp að landamærum kambódíu. sumsstaðar allt að þrjár hæðir með eldhúsi stofu og herbergjum. já þið lesið rétt og allt neðanjarðar. eftir að robbinn hafði fengið að skjóta af m-16 herriffli fengum við að kynnast göngunum með því að skríða þau þrjátíu metra. búið að túristavæða þau en á stríðstímum voru þau einungis áttatíu * sextíu sentimetrar að stærð. vottaði fyrir innilokunarkennd.
í þessari ferð okkar um heiminn hafa lög og reglur einhvern veginn fokið út í veður og vind. þá erum við aðallega að tala um umferðarreglurnar. ótrúlegt t.d. að koma eldsnemma um morgunn með lest til hcmc, ganga beyglaður út af lestarstöðinni og setjast upp á motorbike með bakpokann á sér og láta skutla sér á hótel. þeir keyra eins og vitleysingar þessir menn og er ekkert verið að splæsa í hjálma eða annað slíkt. hér úir allt og grúir af allskyns vespum og mótorhjólum, gömlum og nýjum, kraftmiklum og kraftlausum. þetta er helsti ferðamáti víetnama og bara í hcmc eru fjórar milljónir hjóla. íbúafjöldi er níu milljónir. það þykir merki um ríkidæmi að eiga bíl, en við kaup á einum slíkum bætist við 25% auka skattur. það gilda engar reglur um fjölda einstaklinga pr. hjól og því ekki óalgeng sjón að sjá stórfjölskylduna þar saman komna, fimm manns á einu hjóli. án þess að hugsa sig um prúttar maður aðeins við kappana og stekkur svo um borð. þeir eru ekkert að stoppa á rauðu ljósi, nei, það er bara vesen. svona þeysist maður um og finnst það lítið mál, reyndar með þá vitneskju bak við eyrað að aðeins þrír látast að meðaltali í umferðinni í hcmc á ári.
gullnareglan fyrir gangandi vegfarendur er að jú, ganga yfir götuna en alls ekki hlaupa. ef gengið er rólega þá sveigja hjólin framhjá en ef þú hleypur, þá sjá þeir þig ekki og keyra þig niður. fyrsta daginn okkar í hanoi stóðum við og horfðum á gangstéttina hinum megin götunnar, hugsuðum að við kæmumst aldrei yfir, því þrátt fyrir bæði umferðarljós og gangbraut þá stoppar enginn. fyrstu skiptin reyndi maður því að vera samferða innfæddum, smá laumufarþegi, en eftir nokkur skipti var þetta hið minnsta mál.

förum enn lengra aftur í tímann, eða til nha trang. staðið til í einhvern tíma að maggan kláraði köfunarprófið sitt svo hún og robbinn (sem kláraði sitt próf fyrir einhverjum árum) gætu skoðað nemó og pabba hans í réttu ljósi. það brást ekki. eftir að hafa lokið skylduköfun í sundlauginni fórum við bæði með bát daginn eftir og akkeri sleppt við eyjuna hon mún. þetta var geggjað í einu orði sagt. skyggni ágætt og þvílíkt líf neðansjávar. gulir, grænir, bláir, röndóttir, bláir og röndóttir fiskar og nemó og fjölskylda að sjálfsögðu mætt. þetta var ótrúlegt að upplifa teiknimyndina á tíu metra dýpi svona ljóslifandi. prófið þreytt þegar við komum í land og útskrifast með ágætis einkunn. nú bíður sjórinn okkar í tælandi með gulum, grænum, bláum, röndóttum, bláum og röndóttum sjávarverum.
ef einhver er á leið til nam og vill kafa þá mælum við eindregið með octapus divers í nha trang.
flugum svo frá hcmc til siem reap í kambódíu í gærkvöldi. leigubílstjórinn okkar ágætur í ensku en kunni samt ekki að lesa. stýrið hægra megin en samt hægri umferð. ákveðið að hann skyldi vera "einkabílstjórinn" okkar daginn eftir og keyra okkur um stærsta trúarhof í heimi, angkor wat. kambódía er hvað þekktust fyrir téð hof og pol pot, sem leiddi khmer keisaraveldið áfram í einni af verstu byltingum heimsins á árunum 1975-1979. um tvær milljónir manna voru pyntuð og drepin, aðallega menntað fólk og þeir sem töluðu annað tungumál. landið er enn að ná sér og fólk hvatt til að hugsa um morgundaginn í stað gærdagsins, því ekki fyrir svo löngu síðan var enginn morgundagur. sama hvað gengur á og hvað hlutirnir voru hræðilegir þá byggðu þeir angkor wat og enginn tekur það frá þeim. þetta stolt þeirra er allsstaðar. það er bjór, sígarettur, hótel, veitingastaðir, angkor þetta og angkor hitt. því var ekki úr vegi að koma við og skoða þetta undur. þeir sem hafa séð láru croft - the tomb raider, hringja kannski bjöllum. bregður fyrir í þeirri mynd. að svitna úr hita kl. 7.20 í morgun með þetta fyrir augum var tja, undarlegt.
það er ekki skrítið að angelina hafi ákveðið að taka barn með sér héðan, en þau eru svooooo sæt. þrátt fyrir að vera ofboðslega skítug og nánast í engum fötum þá bráðnar maður.
takk fyrir kveðjur allir og meil, meira svoleiðis takk. söknum ykkar.
ps. daggarafjölskylda,væri ekki ágætt að senda smá emil um árshátíðina og láta kannski nokkrar myndir fljóta með. skiljum ekki alveg hvernig þetta gat farið fram svona án okkar:)
annars er spenningur farinn að magnast, aðeins nokkrir dagar í hitting hólavegsfjölskyldunnar (nema einn legg, hnuss) í bangkok. 4 dagar, counting...

sunnudagur, febrúar 12

ho chi minh city

útrýmingarbúðir nasista er efst í huga okkar þessa stundina. einhverjir kynnu að halda að við séum orðin klikkuð og komin til evrópu, en svo er nú ekki. hér er aðeins um samlíkingu að ræða við þrettán tíma næturlest sem tók okkur frá nha trang til hcmc (ho chi minh city). þvílík og önnur eins upplifun. byrjar á því að við fáum ekki sæti saman, risastór sprunginn hátalari við sætin er spilaði í botni léleg vestræn lög. ekki nóg með léleg lög heldur búið að endurhljóðblanda þau í diskó stíl með víetnömskum söngvurum. robbinn að gera klárt í sæti sem gert er ráð fyrir að hundrað og sextíu sentimetra víetnami sitji í, þegar bankað er í bakið. engu líkara en að gilitrutt væri mætt sem öskraði á hann þannig að sást í einu tönnina í gómnum, en hún skagaði langt fram fyrir neðri vörina. "víííírrr". robbinn; "ha". gilitrutt; "víííííeerrr". robbinn aftur; "what". "dú jú vont bear" kom tröllskessan upp úr sér svo rétt heyrðist fyrir diskóinu. í geðshræringu var "nei" eina svarið. tónlistin hætti nú sem betur fer þegar leið að háttatíma, en byrjaði aftur þegar áfangastað var náð og allir áttu að vakna. fyrsta lag sem hljómaði og átti aldeilis vel við, var "killing me softly with his..." hehehe. allt einu elskum við lyftutónlistina hjá icelandair:)
með stírurnar í augunum létum við mótorbike skutla okkur á hostel sem biblían mælir með. eftir sturtu var ákveðið þema dagsins, stríð. byrjuðum á að rölta í gömlu forseta höllina, en hún þjónaði forseta suður-víetnam til ársins 1966, eða þar til kommúnistar réðust inn í saigon og umkringdu höllina, sem staðið hefur eins frá þessum örlagaríka degi. flott að sjá öll húsgögnin, tækin og flóttaleið forsetans af fjórðu hæð niður í kjallara. hinum megin við hornið er svo stríðsminjasafnið. þar er víetnam stríðið rakið í myndum og máli. þvílíkur og annar eins viðbjóður. myndir af fötluðum, vansköpuðum börnum sem fullorðnum, bandarískur hermaður heldur glottandi á því sem eftir er af fórnarlambi sínu og svona mætti lengi telja. allir gestir, þar á meðal við, gengu um í leiðslu og trúðu ekki því sem fyrir augu bar. var flökurt þegar við gengum út af safninu.
að öðru öllu léttara, þá er maggan orðin "padi open water diver". meira um það síðar þar sem verið er að henda okkur út af netinu, í orðsins fyllstu.

fimmtudagur, febrúar 9

þegar ég var í nam...

já hvar vorum við aftur. höfum nefnilega ekki komist inn á síðuna okkar í fimm daga og munum ekkert hvað síðast var ritað.það er einhver kína vírus hérna í víetnam sem leyfir okkur ekki að skoða blogspot.com.

er komið var frá halong city keyptum við "open tour bus" miða sem leyfir okkur að taka rútu alla leið frá hanoi til ho chi minh city, með nokkrum stoppum á leiðinni. í höfuðborginni var dagurinn tekinn snemma og farið í heimsókn til fyrrverandi forseta landsins, ho chi minh. þessi dáða og elskaða þjóðhetja, sómi víetnam, sverð þess, spjót, rýtingur og allt það, liggur í eigin persónu í einskonar grafhýsi/safni þar sem almenningur getur barið hann augum. fer reyndar til rússlands þrjá mánuði á ári í árlegt viðhald. þvílíkur mannfjöldi þarna samankominn í sama tilgangi og við og gríðarleg öryggisgæsla sem við fengum aðeins að kynnast. byrjuðum á að fara í gegnum öryggishlið og töskur renndar í gegnumlýsingartæki. af einhverjum ástæðum yfirsást þeim eitthvað í töskunni okkar og hleyptu okkur áfram. labbað var í einfaldri röð langa leið að grafhýsinu sjálfu og þar var robbinn tekinn í random tékk og kíkt var í töskuna, já hann lítur eitthvað skuggalega út drengurinn og ekki voru verðirnir neitt glaðlegir. tóku þéttingsfast um handlegginn á honum og kom þar í ljós ipod og sími ásamt öðru smálegu sem reynst getur þessari þjóðhetju stórhættulegt. þurftum því að fara með þetta í sérstaka geymslu og aftur í röð. Þvílík upplifun að sjá kallinn liggja þarna í sínu fínasta pússi með fjöldann allann af vopnuðum vörðum í kringum sig. heimsóknin sjálf tók ekki nema hálfa mínútu því gengið var í einfaldri röð hálfring í kringum hann og bannað var að stoppa. restinni af deginum eytt í fleiri spennandi staði og beðið eftir að næturrútan legði af stað. sú ferð meðfram strandlengjunni til bæjarins hue átti að taka ellefu tíma og ferðast um nóttina. rútan ekkert augnayndi og laus við klósett. bílstjórinn spurður hvað stoppað yrði oft á leiðinni og svarið var tvisar sinnum. grunlausir íslendingar héldu að það yrði svona staðarskála stopp þar sem hægt yrði að pissa og kaupa gotterí. eftir fimm tíma akstur, hlandspreng og einhverjar kríur stoppaði rútan, við hentumst út og blasti þá bara þjóðvegurinn við okkur, engin klósett, enginn staðarskáli, ekki neitt. þá kom sér vel að vera af sterkara kyninu:) haldið áfram og endaði ferðin í fimmtán tímum eftir að sprungið hafði á kagganum#"%!$#&"/% en það
var nú eitthvað sem við sváfum af okkur, þökk sé kormáki í kömbunum.

hrægammarnir (götusölumenn og hóteleigendur) létu ekki sitt eftir liggja þegar við lentum í hue og buðu okkur gull og græna skóga. enduðum á ágætis hosteli í götu sem kallast "backpackers alley" eftir að hafa skoðað nokkur önnur. einn af kostunum við að ferðast svona á nóttunni er að ekki ein mínúta fer til spillis. gátum byrjað strax eftir sturtu að soga í okkur mannlífið á nýjum stað. ákváðum að nú yrði aldeilis tekið á því og leigðum reiðhjól, svona tvær flugur í einu höggi, komumst yfir meira efni á minni tíma, jú og höfðum gott af hreyfingunni, því ölið sem við verðum að bragða á í hverju landi fer ekkert bara upp í munn og út aftur, heldur sest á alla aðra óæskilega staði:) okkur til eilítils hugarangurs. talandi um ölið, það var að sjálfsögðu smakkað í hué, á "café thu on wheels" en það er í téðu "alley", frábær staður þar sem ferðalangar hafa skrifað misfleygar setningar á veggi og loft, okkur tókst að finna tvær á íslensku, sjá myndir.

daginn eftir tókum við bussinn til hoi an, þessi ferð var ögn skárri og mun styttri, þó við hefðum fylgst með "ræstitækninum" þrífa eitthvað misjafnt úr rútunni, frá farþegum næturinnar, áður en við lögðum í hann. hoi an er hvað þekktast fyrir að vera mikill klæðskera bær og hér úir allt og grúir af þess háttar búðum, fólk labbar bara inn, flettir nýjustu vouge og armani blöðunum og bendir á hvað skal sauma. við létum ekki okkar eftir liggja í þessum málum og drifum okkur út að láta mæla hæð, þyngd, mittismál og saumaskapurinn gat hafist. á milli þess sem skroppið hefur verið í mátun höfum við kíkt á ströndina og maggan lesið sér til um köfun. leigðum meira að segja mótorbike til að komast hraðar milli klæðskera. förum á eftir með næturrútu til nha trang þar sem vonandi verður hægt að kafa, já, það er sko alveg kominn tími á að láta sig hverfa héðan áður en við látum sauma meira á okkur, væri nær að láta sauma frekar fyrir budduna.

einhver sem man eftir litla kallinum í laos, hótelstjórinn sem knúsaði stelpurnar þegar við fórum þaðan? hehehe, það kom email frá honum í dag, látum það flakka með eins og það kom frá honum:)

"How are you? im fine could be happy, if you were still here. Anyway, hope you have good the journey from
vientiane to vietname. Say hello from me to your friend. Where are you still to travelling now?...It was so
nice to met you. I look forward to hear from you again.
From: Vy"
þar hafið þið það, gott að eiga vini á réttum stöðum. dugnaður á myndasíðunni lét sjá sig, endilega kíkja við. gott er að setja á "slideshow", tekur styttri tíma. setjum texta við þær við næsta tækifæri (ætli þeir eigi neðansjávar tölvu í nha trang?)

bestu kveðjur til ykkar allra...
hugsum til þeirra sem eiga um sárt að binda þessa dagana.

föstudagur, febrúar 3

good morning vietnam

eins og titillinn gefur til kynna þá erum við komin til nam. heimsóknin til laos varð frekar endasleppt en það má ekki misskilja það, þetta er frábært land og eflaust margt að sjá. en eins fáránlega og það hljómar þá erum við í smá "tímaþröng" og ætlum að vera komin aftur til bangkok eftir tvær vikur, vildum því vera búin með smá hring og eyðum því meiri tíma í þessu landi sem var frönsk nýlenda við lok nítjándu aldar.

höfuðborgin í laos, vientiane hafði upp á margt að bjóða og var svona "laid back" bær, og með stolt þeirra í hendi, lao bjórinn, var þrammað um og reynt að venjast hitanum. það besta við bæinn var að enginn vestrænn risi á borð við mcdonalds og kfc hafa fengið að valsa um og setja upp skiltin sín, einhvern veginn er viðmiðunin orðin sú að ef ekki sjást téð skilti á hverju horni þá verður andrúmsloftið allt öðruvísi, svona pínu sveitó (dreng úr húnavatnssýslunni finnst nú ekkert slæmt við það:) en þetta er kannski viðskiptatækifæri, einhver til? kveldi tvö eyddum við í örlítið pöbbarölt sem leiddi okkur á þennan líka fína karókí bar. strákarnir tveir alveg ákveðnir í að taka lagið fyrir þessar 15 hræður, allar innfæddar. efnisyfirlitið var heldur rýrt, tælensk og lao tónlist var í meirihluta en síðasti diskurinn í möppunni var að sjálfsögðu súkkulaði krútt strákabandið, backstreet boys. sem einlægur aðdáandi var sett á track 14 og talið í. björg færðust úr stað og er talað um söngsigur, svo mikinn, að karókíinu var lokað eftir flutninginn og indriði fékk ekki að spreyta sig, déjoðinn (i.e. D.J.) kom bara upp úr sér, "now disco time, no more karókí". síðasta deginum var svo eytt í golfi á eina vellinum þeirra og svamlað í ískaldri lauginni.

eftir að hafa knúsað pínulitla hostelstjórann, sem einnig vildi fá emil póstfangið okkar, flugum við frá vientiane til höfuðborgar víetnam, hanoi. nú var ekkert höfuðborgar rölt heldur pantað í tveggja daga siglingu um halong bay, en hann er á heimsminjalista unesco. þrjúþúsund eyjar, misstórar og háar, standa upp úr þessum ótrúlega fallega flóa. sagan segir að dreki nokkur hafi komið ofan af fjallinu og með halanum hafi hann myndað dali sem fyllst hafi af vatni og einungis topparnir sjást í dag. en nóg úr fróðleikshorninu. þriggja tíma rútuferð var staðreynd kl. sjö morguninn eftir þar sem keyrt var eftir sveitavegi og endalausir hrísgrjóna akrar teygðu sig til beggja handa. ótrúlegt að sjá alla þessa bændur vinna þvílíka erfiðis vinnu og ég sem hélt að bláu tilda kassarnir í hagkaup kæmu að sjálfu sér:) meðallaun bænda hér um slóðir eru 1.800 ísk á mánuði.
um borð í bátinn var farið, hádegismatur snæddur. nokkur stopp gerð á ferðinni um eyjarnar, farið í land á einni þeirra og hellar skoðaðir, róið á kajak og heilsað upp á fiskimennina á flóanum sem búa í kofa skriflum er fljóta á nokkrum bláum síldartunnum. eru samt með hunda sem gæludýr?!? sváfum í bátnum og örlar ennþá á sjóriðu þegar þessi orð eru rituð.
komumst að því hvað felst í heimsreisu.
  • sitja á þaki báts í sól og sumaryl með fólki frá öllum heimsálfum, sögur sagðar og skiptst á skoðunum...þetta er heimsreisa.
  • finna skítalyktina af sjálfum sér eftir sturtu- og þvottavélaleysi í marga daga...þetta er heimsreisa.
  • setja september á fóninn, hugsa til vina og vandamanna heima og að heiman, meðan fegurðin er virt fyrir sér og þeim leyft að vera með...þetta er heimsreisa
  • rífast við leigubílstjórann sem neitar að gefa þér rétt til baka, váá hvað 14 krónur er mikið fyrir fólkið í nam...þetta er heimsreisa
  • taka út eina og hálfa milljón í hraðbankanum, sem er samt bara 6000 ísk... þetta er heimsreisa.

stefnan er tekin suður á bóginn og reynum að setja myndir við fyrsta tækifæri. þar sem eins árs sonur hostelstjórans hefur kysst okkur góða nótt og vinkað bless, er kominn tími á háttinn.

þetta er róbert elías óskarsson sem ritar frá hanoi - víetnam.