fimmtudagur, febrúar 9

þegar ég var í nam...

já hvar vorum við aftur. höfum nefnilega ekki komist inn á síðuna okkar í fimm daga og munum ekkert hvað síðast var ritað.það er einhver kína vírus hérna í víetnam sem leyfir okkur ekki að skoða blogspot.com.

er komið var frá halong city keyptum við "open tour bus" miða sem leyfir okkur að taka rútu alla leið frá hanoi til ho chi minh city, með nokkrum stoppum á leiðinni. í höfuðborginni var dagurinn tekinn snemma og farið í heimsókn til fyrrverandi forseta landsins, ho chi minh. þessi dáða og elskaða þjóðhetja, sómi víetnam, sverð þess, spjót, rýtingur og allt það, liggur í eigin persónu í einskonar grafhýsi/safni þar sem almenningur getur barið hann augum. fer reyndar til rússlands þrjá mánuði á ári í árlegt viðhald. þvílíkur mannfjöldi þarna samankominn í sama tilgangi og við og gríðarleg öryggisgæsla sem við fengum aðeins að kynnast. byrjuðum á að fara í gegnum öryggishlið og töskur renndar í gegnumlýsingartæki. af einhverjum ástæðum yfirsást þeim eitthvað í töskunni okkar og hleyptu okkur áfram. labbað var í einfaldri röð langa leið að grafhýsinu sjálfu og þar var robbinn tekinn í random tékk og kíkt var í töskuna, já hann lítur eitthvað skuggalega út drengurinn og ekki voru verðirnir neitt glaðlegir. tóku þéttingsfast um handlegginn á honum og kom þar í ljós ipod og sími ásamt öðru smálegu sem reynst getur þessari þjóðhetju stórhættulegt. þurftum því að fara með þetta í sérstaka geymslu og aftur í röð. Þvílík upplifun að sjá kallinn liggja þarna í sínu fínasta pússi með fjöldann allann af vopnuðum vörðum í kringum sig. heimsóknin sjálf tók ekki nema hálfa mínútu því gengið var í einfaldri röð hálfring í kringum hann og bannað var að stoppa. restinni af deginum eytt í fleiri spennandi staði og beðið eftir að næturrútan legði af stað. sú ferð meðfram strandlengjunni til bæjarins hue átti að taka ellefu tíma og ferðast um nóttina. rútan ekkert augnayndi og laus við klósett. bílstjórinn spurður hvað stoppað yrði oft á leiðinni og svarið var tvisar sinnum. grunlausir íslendingar héldu að það yrði svona staðarskála stopp þar sem hægt yrði að pissa og kaupa gotterí. eftir fimm tíma akstur, hlandspreng og einhverjar kríur stoppaði rútan, við hentumst út og blasti þá bara þjóðvegurinn við okkur, engin klósett, enginn staðarskáli, ekki neitt. þá kom sér vel að vera af sterkara kyninu:) haldið áfram og endaði ferðin í fimmtán tímum eftir að sprungið hafði á kagganum#"%!$#&"/% en það
var nú eitthvað sem við sváfum af okkur, þökk sé kormáki í kömbunum.

hrægammarnir (götusölumenn og hóteleigendur) létu ekki sitt eftir liggja þegar við lentum í hue og buðu okkur gull og græna skóga. enduðum á ágætis hosteli í götu sem kallast "backpackers alley" eftir að hafa skoðað nokkur önnur. einn af kostunum við að ferðast svona á nóttunni er að ekki ein mínúta fer til spillis. gátum byrjað strax eftir sturtu að soga í okkur mannlífið á nýjum stað. ákváðum að nú yrði aldeilis tekið á því og leigðum reiðhjól, svona tvær flugur í einu höggi, komumst yfir meira efni á minni tíma, jú og höfðum gott af hreyfingunni, því ölið sem við verðum að bragða á í hverju landi fer ekkert bara upp í munn og út aftur, heldur sest á alla aðra óæskilega staði:) okkur til eilítils hugarangurs. talandi um ölið, það var að sjálfsögðu smakkað í hué, á "café thu on wheels" en það er í téðu "alley", frábær staður þar sem ferðalangar hafa skrifað misfleygar setningar á veggi og loft, okkur tókst að finna tvær á íslensku, sjá myndir.

daginn eftir tókum við bussinn til hoi an, þessi ferð var ögn skárri og mun styttri, þó við hefðum fylgst með "ræstitækninum" þrífa eitthvað misjafnt úr rútunni, frá farþegum næturinnar, áður en við lögðum í hann. hoi an er hvað þekktast fyrir að vera mikill klæðskera bær og hér úir allt og grúir af þess háttar búðum, fólk labbar bara inn, flettir nýjustu vouge og armani blöðunum og bendir á hvað skal sauma. við létum ekki okkar eftir liggja í þessum málum og drifum okkur út að láta mæla hæð, þyngd, mittismál og saumaskapurinn gat hafist. á milli þess sem skroppið hefur verið í mátun höfum við kíkt á ströndina og maggan lesið sér til um köfun. leigðum meira að segja mótorbike til að komast hraðar milli klæðskera. förum á eftir með næturrútu til nha trang þar sem vonandi verður hægt að kafa, já, það er sko alveg kominn tími á að láta sig hverfa héðan áður en við látum sauma meira á okkur, væri nær að láta sauma frekar fyrir budduna.

einhver sem man eftir litla kallinum í laos, hótelstjórinn sem knúsaði stelpurnar þegar við fórum þaðan? hehehe, það kom email frá honum í dag, látum það flakka með eins og það kom frá honum:)

"How are you? im fine could be happy, if you were still here. Anyway, hope you have good the journey from
vientiane to vietname. Say hello from me to your friend. Where are you still to travelling now?...It was so
nice to met you. I look forward to hear from you again.
From: Vy"
þar hafið þið það, gott að eiga vini á réttum stöðum. dugnaður á myndasíðunni lét sjá sig, endilega kíkja við. gott er að setja á "slideshow", tekur styttri tíma. setjum texta við þær við næsta tækifæri (ætli þeir eigi neðansjávar tölvu í nha trang?)

bestu kveðjur til ykkar allra...
hugsum til þeirra sem eiga um sárt að binda þessa dagana.

6 Comments:

Blogger vésí beib hafði þetta að segja...

feikilega gaman að fylgjast með ykkur, myndirnar tóm snilld, nútíminn er frábær! að geta verið 2% með frænkubeibí og robbanum í austurlöndum fjær, en 98% í vinnunni, æðiskæði!

11:53  
Anonymous Nafnlaus hafði þetta að segja...

Mikið roooosalega er þetta skemmtilegt krakkar mínir, ég á við að geta ferðast svona með ykkur(: hehehe djók. Ég veit að þið njótið ykkar í botn. Það þarf kjark og þor til að fara í svona ferð og það þið hafið bæði tala nú ekki um að þið segið svo skemmtilega frá.
Njótið ykkar áfram.
Allir biðja að heilsa
Knús mamma í Koppó

16:18  
Anonymous Nafnlaus hafði þetta að segja...

Gott að heyra frá ykkur og sjá myndir. Vorum farin að kíkja bæði kvölds og morgna og miðjann líka efir pósti og myndum. Þetta er frábært að sjá og heyra og ég sé að það þarf ekki að hafa áhyggjur, sé að það eru teknar myndir sérstaklega fyrir matreiðslukennarann takk fyrir það.
Sjáumst sún.
Kveðjur frá ma og pa.

20:33  
Anonymous Nafnlaus hafði þetta að segja...

Þetta eru ekkert smá flottar myndir, sit alveg dolfallin hérna í fyrirlestri og skoða myndir en gleymi að hlusta :)

10:29  
Anonymous Nafnlaus hafði þetta að segja...

Gaman fylgjst með. Rósa er heima veik og við erum að bíða eftir pabbanum að koma frá útlöndum. Hér er vor í lofti, allavega í dag. Ekki reyna að sýna neina kunnáttu í dönsku eða norsku, allavega ekki nálægt múslimuum.
kveðja úr blokkinni

15:37  
Blogger ********** hafði þetta að segja...

Mundid tid bara ganga í sérsaumudum fotum hér eftir?

17:36  

Skrifa ummæli

<< Home