föstudagur, mars 24

singapore - so perfect

facts; höfuðborg singapore - íbúafjöldi 4,425,720 - tungumál enska (opinbert tungumál), kínverska, malay og tamil - trúarbrögð búddha, múslimar, hindú, kristnir ofl. - gjaldmiðill singapore dollar SGD - vegabréfsáritun nei - tímasvæði gmt +8 klst.

sennilega hefur þessi ákvörðun að taka næturrútu frá kuala lumpur verið sú heimskulegasta sem við höfum tekið í þessu ævintýri. lögðum af stað á miðnætti með þennan dæmigerða skipta um land spenning og því erfitt um svefn. eftir að hafa dormað í einhverja stundarfjórðunga vorum við vakin á landamærunum um kl. fjögur. vissum hvorki í þennan heim né annan en gátum þó stimplað okkur út úr malasíu og inn í singapore. komin í miðja borgina þrjátíu mínútum seinna eða um 4.30 am. og hvað gerir maður í miðri stórborg um miðja nótt, klyfjaður af bakpokum og fær ekki herbergið sitt fyrr en á hádegi? ákváðum þó að taka leigubíl á hostelið og athuga hvort við fengjum að komast inn eitthvað fyrr. stór og greinilegur miði í glugganum sýndi að lobby-ið opnaði kl. 8. en eftir að hafa vafrað um fyrir utan var allt í einu opnað og fengum að kasta okkur í sófann í móttökunni, gjörsamlega úrvinda. já, þrátt fyrir að vera búin að ferðast í bráðum þrjá mánuði getur manni dottið svona vitleysa í hug, það segir okkur bara eitt, ferðast meira! þetta hlýtur að lærast.

singapore líkist kuala lumpur örlítið, enda ekki nema von því landið var partur af malasíu þangað til 1967, en er samt miklu meira móðins og digital. til dæmis samgöngumálin, sem er rekið af einu fyrirtæki, bæði lestar og strætóar. kaupir þér passa í debetkorta stærð og þegar ferð er ákveðin með téðum farartækjum og ganga á í gegnum hliðin eða í strætóinn er nóg að baða út höndunum eða sveifla veskinu og þú ert kominn í gegn. ekkert vesen með túkalla. þetta er bara brot af því hvað allt virðist fullkomið hérna. hreinlætisstuðullinn í borginni er líka fyrir ofan öll viðmið. já þegar við tölum um borgina þá erum við að tala um þrenna hluti því singapore er allt í senn, land, eyja og borg. en að hreinlætinu. hvar sem gengið er, finnur þú hvorki skítafýlu, karamellu bréf né tyggjóklessu. reyndar ef þú vogar þér að spýta út þér einu jórtuleðri gætir þú átt von á mjööög hárri sekt. einnig ef þú fyrir einhverja rælni hjólar í gegnum undirgöng þarftu að punga út fjörtíuþúsund krónum! veit ekki hvað dananum fyndist um það að þurfa alltaf að reiða fákinn:)
hvergi er betlara að sjá, eins og allsstaðar annarsstaðar þar sem við höfum dvalið. öndergrándið hreinna en stofan í a8 og ekkert veggjakrot. nóg pláss um allt og enginn troðningur eða náunginn fyrir aftan að anda ofan í hálsmálið á þér.

höfum að sjálfsögðu reynt að gera alla þá hluti sem okkur ber að gera sem alvöru bakpakkarar. fyrsti dagurinn fór reyndar í að muna hvaða mánuður væri og hvað tímanum liði, sökum næturbröltsins. svokallað "night safari" stendur þó upp úr hjá okkur, þar sem farið er í dýragarð að kvöldi til. bæði keyrt og labbað milli allskonar dýrategunda í sínu náttúrulega umhverfi og nálægðin ótrúleg við sumhver, t.d. hlébarða, leðurblökur, ljón ofl. magnað. höfum svo skotist með neðanjarðarlestunum milli miðbæjar, kínahverfisins, litla indlands og verslunarhverfisins og gengið af okkur lappirnar. hindú og búddha hof, mannlíf, hreinar götur og risastórar verslunarmiðstöðvar svo fátt eitt sé nefnt hefur borið fyrir augu okkar. singpore river er hjarta borgarinnar og mikið líf og fullt af veitingastöðum er þar að finna. þar er einkennismerki landsins sem er hálfur fiskur og hálft ljón, en borgin er jafnan kölluð lion city. sentosa er skemmtigarðs eyja í um kílómetra fjarlægð frá meginlandinu sem við heimsóttum einnig. þangað er hægt að komast með rútu, bát, gangandi eða svona skíðalyftu kláf. skoðuðum okkur um og spiluðum míni golf. tókum svo kláfinn til baka, en hann liggur yfir höfnina og fer í 60-70 m hæð.

langflestar stærri borgir og bæir sem heimsóttir hafa verið í þessu ævintýri búa svo vel að eiga annaðhvort eitt kínahverfi eða litla indland, nema hvoru tveggja sé. höfum því skoðað ófá þess háttar hverfi. singapore státar af hvoru tveggja og höfum við gist í litla indlandi frá því við komum (vorum í kínahverfinu í kl). þessi hverfi hafa alltaf iðað af lífi og karakter, með allskonar fólki sem situr um allt og mikil lykt liggur yfir. það er einvhernveginn einsog þetta vanti hér, það er allt svo hreint og vel málað að manni finnst þetta varla vera ekta. það vantar því örlítinn sjarma og gerir borgina karakterminni en aðrar. nema náttúrulega að karakter þessarar borgar sé hreinleikinn!! skemmtileg engu að síður.

dubbuðum okkur upp í gærkvöldi (je rægt, hvernig dubbar bakpakkari sig upp?) , tókum lyftu á sjötugustu hæð á einu hóteli hér í bæ og fengum okkur singapore sling drykkinn margfræga (algjörlega óumflýjanlegt;) frábært að fylgjast með þegar myrkrið helltist yfir og borgin breyttist í eitt ljósahaf með trylltu útsýni. skrýtið samt að í svona háhýsa borg, landi, eyju er bara einn sky-bar. það fór líka ekki á milli mála þegar við röltum inn, mjög snemma á íslenskan mælikvarða amk., að þarna var allt aðalliðið mætt á barinn...við þar á meðal! singapore sling kokkteillinn var fyrst hristur árið 1915 á raffles hótel hér í borg. heyrðum af því að þeir væru orðnir leiðir á hristingnum, og er drykkurinn því blandaður í stóra tunnu í byrjun dags. þó svo að mælt sé með ferð á upprunalega staðinn, þá vorum við hvorki með réttan dresskode né fannst okkur heillandi að sötra úr tunnunni.

en það er komið að heimsálfu skiptum hjá okkur því á morgun fljúgum við til ástralíu. frekar furðulegt að hugsa til þess að vera beint undir fróni. getið rétt ímyndað ykkur hvað okkar fyrsta verk verður... meira um það síðar. kveðjum því asíu í bili en hér höfum við eytt ellefu vikum af lífi okkar, tíminn verið allt í senn stórskemmtilegur og hrikalega lærdómsríkur, með ekka og tárum segjum við bless.

dugnaður kíkti enn einu sinni í heimsókn á myndasíðuna. er þar að finna síðustu myndir malasíu og frá dögunum hér í lion city. hver er eiginlega þessi hr. dugnaður sem er alltaf að kíkja hingað?

yfir og út (ja eða niður...)

8 Comments:

Anonymous Nafnlaus hafði þetta að segja...

Góða skemmtun, ekki bregða við að fara aftur í vestræna menningu...
kv. Þyrí:)

16:29  
Blogger ********** hafði þetta að segja...

Hí,hí sé ykkur í anda vafrandi um stórborgina um hánótt...

oh hvað ég öfunda ykkur af því að hafa séð Merlion og góða skemmtun í Ástralíu:)

20:05  
Anonymous Nafnlaus hafði þetta að segja...

Ég bið að heilsa öllu frændfólki mínu í Ástralíu! Góða skemmtun. kv. Beta Rán

20:30  
Anonymous Nafnlaus hafði þetta að segja...

Nú farið þið að nálgast uppruna nuddsins míns. Ég er farin að öfunda ykkur já í alvöru fyrst núna því að mig langar svo til að fara til nýjasjálands. Jæja en ég verð með í anda eins og áður. Gangi ykkur vel áfram elskurnar mínar.
Knús til ykkar frá Blönduósi

23:28  
Anonymous Nafnlaus hafði þetta að segja...

Jæja, þið færist nær hinni svokölluðu "menningu", en alvöru hvað?? Er allt uppeldi að engu orðið?
Annars bestu óskir til Ástralíu, og lítið fyrir mig á óperuhúsið.
Kv
ma+pa =a(m+p)

22:17  
Anonymous Nafnlaus hafði þetta að segja...

Hæ ég ætla sanna fyrir mömmunni að ég hafi skoðað síðuna ykkar. Hún er ekki lítið ánægð með tælandsferðina. Sendir ykkur svo bara út í óvissuna burt úr öllum lúxus. Rosalegt. En þetta eru mjög skemmtilegir ferðapistlar og myndirnar frábærar svo ég mun halda áfram að fylgjast með ævintýrum ykkar. Takk Begga

21:32  
Anonymous Nafnlaus hafði þetta að segja...

Hvernig gengur í þessari heimsálfu? Er orðin spennt að fá nýjustu fréttir. Baula nú hátt Búkollurnar mínar...

16:34  
Anonymous Nafnlaus hafði þetta að segja...

úúúú gott að vera í Singapore. Eins og ég segi: Upplýst einræði er besta stjórnkerfið...

Gangi ykkur vel, Þóra Björk

17:45  

Skrifa ummæli

<< Home